154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[15:27]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Mig langar að halda áfram með það sem ég var að ræða í fyrri ræðu minni. Þar kom ég inn á að ég teldi að ein af orsökum verðbólgunnar væri gríðarleg fólksfjölgun. Okkur er að fjölga um 1.000 manns á mánuði og hefur gert undanfarna mánuði og undanfarin ár. Á árinu 2022 fjölgaði íbúum þessa lands um 3%. Til samanburðar hefur árleg fólksfjölgun í öðrum Evrópulöndum verið innan við 1% og jafnvel fólksfækkun. Fjölgun erlendra ríkisborgara á fyrsta ársfjórðungi 2022 til þriðja ársfjórðungs 2023 var um 30%. Nú í lok árs búa á Íslandi 72.000 erlendir ríkisborgarar sem er 18% af heildaríbúafjölda. Við erum með hælisumsóknir frá 4.200–4.500 manns í ár sem við þurfum að sjá fyrir fæði, klæði og húsnæði. Svo fáum við ferðamenn sem fara í skammtímaleigu, í Airbnb og hótelin, og þar erum við með 2,2 milljónir í ár. Í skýrslu frá Seðlabankanum er fjallað um ástæður fyrir verðbólgunni og þar er m.a. komið inn á fólksfjölgunina, að hún hafi valdið hækkunum á húsnæðisverði og skal engan undra miðað við þessa fólksfjölgun sem ég hef farið yfir. Á sama tíma er íbúðafjárfesting að dragast saman í ár. Um tíma hefur helsti drifkrafturinn í verðbólgunni verið íbúðarverðið, vegna þess að það er skortur á íbúðum, við erum ekki að mæta þeirri eftirspurn sem hefur orðið vegna fólksfjölgunar. Ég hef ekki tekið eftir því að seðlabankastjóri hafi minnst á þetta á vaxtaákvörðunardögum sínum.

Þegar við skoðum hverjar eru orsakirnar fyrir verðbólgunni þá eru þær að sjálfsögðu mjög margar og flóknar. Við vorum í Covid þar sem peningamagn í umferð var aukið. Ríkið sprautaði pening inn í fyrirtæki landsins til að tryggja að þau færu ekki á hausinn, að þau myndu ekki lenda í fjöldagjaldþrotum. Vissulega er peningamagn í umferð grundvallaratriði varðandi verðbólgu. Hinn frægi hagfræðingur og nóbelsverðlaunahafi Milton Friedman sagði að verðbólgan væri fyrst og fremst eingöngu peningalegt fyrirbæri, það væru of margir peningar að eltast við vörur og það þyrfti að minnka peningamagn í umferð. En það er bara ekki alveg þannig. Vissulega er þetta gríðarlega merkilegur fræðimaður þó að ég sé ekki sammála honum. Hann kom hingað til lands og það er til frægur sjónvarpsþáttur þar sem Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti, stjórnaði umræðunum. Það væri gaman að fá að sjá hann aftur, það voru skemmtilegar umræður. En hvað um það, kenning hans er gríðarlega mikilvæg en hún er ekki algjörlega hárrétt. Það má a.m.k. gagnrýna hana gríðarlega. Stríðið í Úkraínu hefur líka valdið verðbólgu og peningamagn í umferð jókst ekki þar. Og hvar er Friedman þá? Samdráttur í framleiðslu á olíu getur hækkað verð á henni og það veldur verðhækkunum á öllum vörum sem nota olíu eða vörum sem nota vörur sem nota olíu sem framleiðsluþátt, alveg án þess að peningamagn í umferð breytist. Þannig að skortur á vörum getur líka gert það og aukin eftirspurn eftir vörum, eitthvað sem við höfum orðið vitni að vegna fólksfjölgunar. Það er komið inn á þetta í meirihlutaáliti fjárlaganefndar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Þegar íbúum fjölgar þetta mikið má gera ráð fyrir því að það hafi veruleg áhrif á eftirspurn eftir t.d. húsnæði, vörum og þjónustu. Með slíkri fólksfjölgun má einnig gera ráð fyrir verulegri aukningu á eftirspurn eftir opinberri þjónustu sem hefur áhrif á ríkisútgjöldin.“

Það er þessi ástæða fyrir verðbólgunni sem ríkisfjármálin taka ekki á með nokkrum einasta hætti. Ríkisfjármálin eru algerlega hlutlaus þegar kemur að verðbólgunni. Þeir í Svörtuloftum uppi í Seðlabanka eru algerlega látnir sjá um baráttuna gegn verðbólgu, enda eru stýrivextir 9,25%. Eru þeir að hafa áhrif? Ekki samkvæmt upplýsingum sem komu frá Seðlabankanum á síðasta vaxtaákvörðunardegi, þeir eru ekki að hafa þau áhrif sem þeir bjuggust við og það er grafalvarlegt mál. Ég tel að það sé vegna orsaka verðbólgunnar sem þeir eru ekki að hafa áhrif.

Ástæðurnar fyrir verðbólgunni geta verið margar og flóknar. Verðbólga er einkenni, alveg eins og þegar þú færð hita, það getur verið fjöldinn allur af bakteríum, vírusum og alvarlegum meinum sem veldur hita. Það sama á við um verðbólguna, það geta verið margar ástæður fyrir henni. Hagkerfið er flókið og dýnamískt ólínulegt kerfi með mörgum, fyrirgefið að ég noti orðið, feedback-lúppum eða undantekningum. Það getur því verið erfitt að átta sig á því hvað nákvæmlega er að valda verðbólgunni. Seðlabankastjóri vitnaði einu sinni í tásumyndir á Tene þegar stýrivextir voru hækkaðir um 0,25%. Íslendingar voru jú að fara til Tenerife eftir Covid að taka myndir af sínum fallegu tám og hann hafði þetta á orði þegar peningastefnunefnd hækkaði vexti um 0,25%. En þessar ástæður eru mjög flóknar og erfitt að henda reiður á þeim. Seðlabanki Svíþjóðar er hugrakkur og það er grein í Financial Times þar sem er vitnað í seðlabanka Svíþjóðar þar sem þeir segja: Við erum hræddir um að það sé verðbólguþrýstingur sem við skiljum ekki alveg að fullu. Það er sem sagt verðbólguþrýstingur í sænsku samfélagi sem þeir skilja ekki alveg að fullu. Þeir segja: Hann hefur náð meiri krafti en við héldum í ársbyrjun 2022. Þannig að við verðum að átta okkur á því að meira að segja í Svíþjóð segjast þeir ekki skilja alveg til fulls hvað er að gerast.

Ég flutti ræðu í fyrri umræðu og kom inn á það að ég tel að þessi fólksfjölgun sé m.a. gríðarlegt vandamál — ekki vandamál en við verðum að taka á þessari þenslu og fólksfjölgun er ein af orsökum þenslunnar. En það er ekki að gerast. Við getum hækkað stýrivexti alveg út í það óendanlega og samt er verðbólga. Þeir hafa ekki áhrif, þeir munu ekki hafa áhrif og það er út af þessum grunnorsökum verðbólgunnar.

Það er líka annað og það er samsetning lánanna. Fyrir hrun tóku mörg okkar lán, bílalán og húsnæðislán, og ég var meðal þeirra. Ég tók hluta af lánunum mínum í svokölluðum gengistryggðum lánum. Þá var lánið bundið við erlendan gjaldmiðil. Ég tók mitt 4 millj. kr. lán og tengdi það við jen. Í hruninu hækkaði þetta lán um 12 milljónir. Ég var reyndar að vinna í efnahagsbrotadeild á þessum tíma og fór að skoða þetta, m.a. vegna vinnu minnar og svo bara sjálfstætt. Þá sá ég að gengistryggðu lánin voru að sjálfsögðu kolólögleg og ekki nóg með það, þau voru refsiverð. Það eina refsiverða í lögunum, lögum um vexti og verðtryggingu, var ef þú braust gegn kaflanum um verðtryggingu. Stýrivextirnir höfðu engin áhrif á gengistryggðu lánin, þeir skiptu engu máli. Seðlabankinn hækkaði og hækkaði stýrivextina og það hafði engin áhrif af því að lánið var tengt við erlenda mynt. Það var það sem hafði áhrif, það tengdist genginu. Það sama á við um verðtryggðu lánin, ekki í eins miklu magni reyndar en nákvæmlega það sama á við um verðtryggð lán. Þegar stýrivextir eru hækkaðir hafa þeir ekki sömu áhrif á verðtryggð lán. Það er nú bara þannig. Þannig að önnur ástæðan fyrir því að stýrivextir hafa ekki áhrif er samsetning lánanna, samsetning útlána í íslensku samfélagi. Við erum því með tvenns konar vandamál: Grunnorsök verðbólgu í samfélaginu og líka samsetningu útlána á Íslandi og hvernig fjármálakerfið er byggt upp. Við erum ekki að taka á þessum vanda í dag, við erum ekki að gera það. Stýrivextir eru ekki að taka á grunnorsökum vandans, grunnástæðunni fyrir því að við búum við verðbólgu og við erum núna komin í þráláta verðbólgu.

Þetta er að gerast af tveimur ástæðum. Stýrivextirnir taka ekki á grunnorsökum verðbólgunnar sem geta verið flóknar og margvíslegar. Ég hef fært rök fyrir því að ég tel þá vera eina ástæðuna fyrir mikilli verðbólgu hérna. Svo er það hin ástæðan, þessi kerfislæga. Við verðum að ná tökum á báðum þessum hlutum. Breyturnar liggja fyrir og það þarf að benda á þær. Breyturnar í íslensku samfélagi liggja fyrir og ég er búinn að benda á eina en þær eru fleiri. Vissulega var Covid líka. Það er ekki hægt að hækka stýrivexti út í hið óendanlega til að taka við auknu peningamagni í umferð sem var vegna Covid. Það er ekki þannig sem það gengur fyrir sig. Noregur hækkaði í 4,25% og önnur ríki um svipað. Við erum í 9,25% sem er algjört einsdæmi. Ein ástæðan fyrir því að stýrivextir voru ekki hækkaðir síðast var vegna ástandsins á Reykjanesi. Það er alveg klárt mál að heimilin í landinu geta ekki búið við 9,25% stýrivexti og þær gríðarlegu hækkanir sem verða á lánunum fyrir þá sem eru með breytilega vexti og fyrir þá sem eru með bundna vexti. Það mun leiða til gjaldþrota heimila í landinu, hluta þeirra, og til þess að fólk missi heimili sín. Við erum ekki að taka á vandanum með nokkrum hætti. Þessi fjárlög gera það ekki heldur.

Þú getur lækkað verðbólgu með sköttum. Það er hægt að taka peninga úr umferð þannig. Ef spurningin er hvort við séum með tekjuvanda eða útgjaldavanda í ríkisfjármálunum þá hallast ég frekar að því að þetta sé tekjuvandamál. Stjórnarmeirihlutinn hefði getað tekið á þessu máli, a.m.k. sagst ætla að vera þátttakandi í baráttunni gegn verðbólgunni, ekki að vera hlutlaus. Það er mjög sorglegt að fjárlögum sé ekki beitt nægjanlega í baráttunni gegn verðbólgunni. Það er það sem algjörlega vantar. Við verðum að ná tökum á verðbólgunni, við verðum að gera það. Ef við gerum það ekki er það gríðarlegur ósigur fyrir íslenskt samfélag, íslensk stjórnmál og íslenskt stjórnkerfi. Ég man tímann milli 1980 og 1990 þegar það var óðaverðbólga hérna. Við erum vonandi ekki að fara inn í svipað tímabil núna, áratug verðbólgu, þrálátrar verðbólgu og stöðnunar. Það er hins vegar mjög líklegt að við séum að fara að gera það, að við séum að fara að lenda í tíma verðbólgu sem við ráðum ekki við — og líka stöðnunar. Það er mikið undir í því að við náum tökum á verðbólgunni, það er algjört grundvallaratriði, og það er ekki verið að gera það í þessu fjárlagafrumvarpi. Útlit er fyrir að verðbólgan í ár verði að meðaltali 8,7%. Verðbólgan hefur verið þrálát á þessu ári og stendur nú í 7,9%. Í forsendum frumvarpsins, þegar það var lagt fram í september, var samkvæmt spá Hagstofunnar gert ráð fyrir 4,9% verðbólgu. Í uppfærðri spá í nóvember er gert ráð fyrir 5,9% verðbólgu. Ég held að þetta sé tala í lægri kantinum. Ég bara efast raunverulega um að við náum verðbólgunni mikið niður, það á eftir að koma í ljós, en þá mun allt verða algjörlega botnfrosið hérna. En við skulum sjá til.

Hagvöxtur í fyrra var 7,2% og í uppfærðri spá er gert ráð fyrir lægri hagvexti á næsta ári, eða um 2,1%.

Mig langar aðeins að fjalla um krónuna. Í 2. umræðu fjárlaga hefur verið talað um krónuna og það var þáttur í Ríkisútvarpinu sem heitir Kveikur — ég hef ekki séð þann þátt en ég sá fréttaskýringu RÚV sem byggir á þessum þætti. Ég verð að segja að ég varð bara mjög hissa þegar ég sá það sem ég las. Mér fannst það algjör grautur. Þar kemur í fyrsta lagi fram að íslenska krónan sé gríðarlega óstöðug. Hún hefur vissulega verið það en ég skora á alla að skoða gengi hinnar gríðarlegu óstöðugu krónu. Það er mjög einfalt mál að gera það; fara bara inn á t.d. Landsbankann, gengissíðuna þar, og skoða flöktið á íslensku krónunni. Það er líka gott að skoða samanburð við aðra gjaldmiðla eins og t.d. norsku krónuna. Hún hefur veikst mikið í ár, t.d. gagnvart bandaríkjadollar og evru. Íslenska krónan hefur ekki verið sérstaklega óstöðug, það er ekki ástæðan fyrir verðbólgunni. Það eru aðrar orsakir, það er ekki gríðarlegt fall íslensku krónunnar. Ég get tekið dæmi. Norska krónan fór úr 14 íslenskum krónum fyrir ári síðan niður í 12,5 krónur nú í sumar og er nú aftur komin upp í 13,5. Það er ekkert hrun íslensku krónunnar gagnvart norsku krónunni. Mjög svipaða sögu er að segja varðandi evru og bandaríkjadollar. Íslenska krónan er ekkert mikið óstöðugri en sú norska en Norðmenn hafa náð tökum á verðbólgunni með 4,25% stýrivöxtum og öðrum aðgerðum.

Í öðru lagi er það þessi eilífi söngur um að það séu fyrirtæki í landinu sem geti gert bókhald sitt upp í erlendum gjaldmiðli, að þau hafi fengið heimild til að losna undan óstöðugleika krónunnar — sem er ekkert sérstaklega óstöðug ef þið skoðið það — og á meðan sitji heimilin uppi með íslensku krónuna. Það sem þarna er verið að gera er að þessi fyrirtæki eru að fá tekjur í evrum og gera upp í evrum. Ef einhverja langar að gera upp í evrum þá bara gera þeir það. Ef einhvern langar að gera heimilisbókhald sitt upp í evrum þá er bara mjög einfalt að gera það. Þetta er bókhaldslegt atriði. Það sem meira er: Ef einhver vill kaupa evrur þá er bara einfalt að nota launin, sem eru greidd út í íslenskum krónum, og kaupa sér evrur. Það er t.d. gert í stórum stíl í Argentínu. Íbúar þar treysta ekki pesóanum og fólk kaupir sér dollara þar og geymir sparifé sitt í dollar.

Ég má líka til að upplýsa um það að innlánsvextir, t.d. í Landsbankanum, eru um 8,75% á íslensku krónunni. Vextir á norskum krónum eru hæstir 4% en yfirleitt er þetta í kringum 1%. Þannig að við getum ávaxtað íslensku krónuna miklu betur. Svipað á við um evruna. Þeir sem myndu skipta öllu yfir í evrur um hver mánaðamót myndu þurfa að búa við miklu lægra vaxtastig á innlánum sínum. Það að halda því fram að það sé einhver sérstétt sem gerir upp í evrum, sem eru fyrirtæki sem eru með tekjur í erlendum gjaldmiðli, sem er bókhaldslegt atriði, það er ekki málið. Það geta allir gert upp í þeim gjaldmiðli. Gjaldeyrir er í eðli sínu metrakerfi, þetta er mælieining. Það er líka mjög mikilvægt að lán til einstaklinga sé í þeim gjaldmiðli sem tekjur hans eru í. Það er grundvallaratriði. Ef mestar tekjur eru í erlendri mynt og útgjöldin eru í erlendri mynt þá er það miklu betra fyrir innri rekstur fyrirtækjanna að láta þetta passa saman þannig að það lækki þeirra kostnað. Svo einfalt er það. Auðvitað geta bankar lánað til þeirra fyrirtækja sem eru með tekjur í erlendri mynt. Það er mjög mikilvægt. Ég get komið aftur að dæminu um það þegar ég tók lán í jenum. Það lán fór úr 4 milljónum í 12 milljónir af því að ég var með það gengistryggt. Sama hefði gert gerst ef ég hefði verið með jenalán. Það er gríðarleg áhætta fyrir Íslendinga að taka lán, t.d. húsnæðislán, í erlendri mynt. Ekki gera það. Það er stórkostleg hætta sem fylgir því vegna þess að það gæti gerst að krónan myndi skyndilega lækka, ef það yrði t.d. aflabrestur. Ef það kæmi gos og engir ferðamenn inn í landið þá myndi krónan lækka í verði. Sveiflujöfnunarkerfi íslensku krónunnar er gríðarlega mikilvægt og má rekja upphaf stærstu atvinnugreinar þjóðarinnar, ferðaþjónustunnar, til lágs gengis á íslensku krónunni eftir hrun.

Þriðja atriðið sem vakti athygli mína í þessari fréttaskýringu voru hinir gríðarlega háu vextir á Íslandi. Ástæðan fyrir háum vöxtum er verðbólgan. Ég er búinn að segja hvað verðbólgan var, í dag er hún 7,9% og að meðaltali 8,7%. Stýrivextir eru 9,25% og það er til að berjast gegn verðbólgunni. Það er ástæðan fyrir því að við höfum ekki náð tökum á verðbólgunni. Og þeir eru allt of háir. Seðlabanki Íslands er í tómu rugli með þessar hækkanir enda hafa þær ekki áhrif. Það er vegna þess að grunnorsök verðbólgunnar er önnur en peningamagn í umferð. Það eru aðrar ástæður sem við vitum ekki nákvæmlega hverjar eru en ég hef bent á eina hér; fólksfjölgunina og hina miklu eftirspurn, skort á húsnæði, að sjálfsögðu, og skort á íbúðum, skort á samkeppni líka. Við erum sennilega komin í eins konar græðgisverðbólgu. Ég man ekki alveg hvað hún heitir en þetta er kallað „greed inflation“. Og það er líka hinn gríðarlega mikli hagvöxtur sem hér á sér stað.

Það eru ríki í Evrópusambandinu sem eru með evru og eru með háa verðbólgu. Verðbólga í Eystrasaltsríkjunum, sem eru með evru, hefur verið mjög há. Í dag er verðbólga í Eistlandi 9,4% á ársgrundvelli. Í Lettlandi er verðbólgan 9,6% og í Litháen er verðbólgan 8,8%. Öll þessi ríki búa við fólksfækkun og neikvæðan hagvöxt. Eistland var á síðasta ári með neikvæðan hagvöxt um 2,6%, Lettland 0,2%, Litháen 0,4%. Er evran að hjálpa þessum ríkjum? Nei, evran er ekki að hjálpa þessum ríkjum, ekki á nokkurn einasta hátt. Spáð var í upphafi árs í Eystrasaltsríkjunum að verðbólgan í þessum ríkjum, alla vega tveimur af þremur þeirra, mig minnir að það hafi verið Eistland og Litháen, yrði 15–17%. Þannig að það er líka verðbólga í evruríkjunum, ekki gleyma því. Og það er fólksfækkun þar líka.

Ástæðan fyrir þessu er að verðmætasköpunin skiptir öllu máli og það er framleiðnin sem gerir okkur rík, verðmætasköpun og framleiðni. Það er mjög mikil verðmætasköpun í íslensku samfélagi. Eins og ég sagði í fyrri ræðu erum við auðlindahagkerfi, búum við ein gjöfulustu fiskimið í heimi, glæsilegt land, ótrúlega fegurð sem ferðamenn koma að skoða og vatnsaflið og jarðvarmavirkjanir sem selja orku til álvera og heimila, eina stærstu hitaveitu heims á höfuðborgarsvæðinu sem bætir lífskjör. Evran myndi ekki breyta neinu þar, ekki skipta nokkru einasta máli. Við skulum horfa til Eystrasaltsríkjanna hvað varðar verðbólguna. Annað sem við ættum líka að horfa til er stærð okkar. Við erum 400.000 manns í 103.000 km² landi. Í Norður-Noregi, í fylkjunum Tromsø og Finnmörku, búa 470.000 manns. Það er landsvæði sem er 112.000 km², það er aðeins stærra en Ísland en mjög svipað hvað varðar hagkerfið. Þeir eru reyndar ekki með mikið af álverum, veit ég, en það er sjávarútvegur, landbúnaður o.s.frv. Og þá kem ég að því sem ég hef líka heyrt talað um: Ástæðan fyrir því að erlendir bankar koma ekki til Íslands er íslenska krónan. Nei, það er ekki íslenska krónan, það er smæðin að mörgu leyti og stórskrýtið fjármálakerfi, með verðtryggðri krónu, 50%-samsetningunni og stærðinni á lífeyrissjóðunum, og annað. Við erum svo lítil. Ég var að vinna í tveimur bönkum í Noregi, DNB og Nordea, og ég var svolítið í Eystrasaltsríkjunum þegar DNB var með útibú þar á sínum tíma og Nordea líka. Þessir bankar slógu saman og stofnuðu nýjan banka saman sem heitir Luminor. Þeir seldu hann síðan. Af hverju? Af því að þeir höfðu ekki lengur áhuga á að vera í Eystrasaltsríkjunum með bankastarfsemi, þar sem evran er, þeir hreinlega nenntu því ekki, stjórnunarlega séð, ekki eftir nógu miklu að slægjast o.s.frv. Bankar hafa verið að fara út úr Eystrasaltsríkjunum, m.a. út af smæðinni og líka af því að það er ekki rekstrargrundvöllur fyrir þá. Ég held að núna sé þar aðallega Svea Bank. Danske bank er líka á þessu svæði, alla vega í einhverjum ríkjunum, en Svea Bank er stærsti bankinn. Og þetta er í evrulöndum. Og það eru miklu fjölmennari ríki þarna. Í Eistlandi eru 1,3 milljónir manns og í hinum ríkjunum eru, minnir mig, svona 3–4 milljónir, 4,3 í Litháen. Það er líka gríðarleg fólksfækkun. Sama er með Norður-Noreg. Þar búa 470.000 manns. Jú, það eru útibú frá stórum bönkum þar, þetta er jú hluti af stærra landi, en bankar heimsins eru ekkert að hlaupa þangað með bankastarfsemi, síður en svo. Það er byggt á algerum misskilningi að það myndi verða biðröð af erlendum bönkum að koma hingað ef við tækjum upp evru. Það er ekki þannig.

Krónan hefur hins vegar verið sveiflujöfnunartæki og líka það að við höfum notað íslensku krónuna og við erum eitt auðugasta ríki heims. Þessi söngur núna um að evran myndi bjarga okkur, það er bara ekki þannig, ekki á nokkurn einasta hátt. Ég get lofað ykkur því að ef við tækjum evruna upp myndi eignaverð daginn eftir rjúka upp úr öllu valdi. Það verður ekki endilega léttara að kaupa húsnæði á Íslandi með evruna í þeim húsnæðisskorti sem er núna. Það eru aðrar orsakir fyrir því; skortur á húsnæði og fáránlegt fjármálakerfi þar sem verðtryggð lán eru úti um allt. Lántakendur, venjulegt fólk, eru látnir bera verðbólguáhættuna en ekki bankarnir. Ég skora á allan þingheim að útskýra verðtryggingu á erlendu tungumáli fyrir erlendum aðilum. Þeir hrista gjörsamlega hausinn; höfuðstólshækkanir á hverju ári sem rýra eigið fé fólks og það að bankarnir sjálfir með alla sína sérfræðinga, hagfræðinga og guð má vita hvað sem eru að spá í spilin á fjármálamörkuðum heimsins með sínar afleiður, geta tryggt sig fyrir verðhækkunum og guð má vita hvað, að þeir séu ekki látnir bera verðbólguáhættuna af lánum til húsnæðiskaupenda er algjört hneyksli, svo ekki sé meira sagt. Það sem er líka hneyksli er að stýrivextirnir virka ekki. Það er ein af ástæðunum fyrir því að við erum með svo háa stýrivexti, eins og ég kom inn á áður.

Ég tel að þessi atriði sem ég hef farið hér yfir séu mikilvæg í umræðunni um ríkisfjármálin. Annað sem ég tel líka skipta máli er að við erum á þenslutímum. Það er gríðarlegur hagvöxtur í samfélaginu. Við erum með hagvöxt á síðasta ári, eins og ég sagði áðan, upp á 7,2%. Það er spá Hagstofunnar að á næsta ári verði hagvöxtur 2,1%, sem er gríðarlega mikilvægt.

Ég vil minnast á umsögn Alþýðusambands Íslands um fjármálaáætlun þar sem þeir segja að við búum við hagvaxtartíma núna, í miklum hagvexti, en samt séu húsnæðiseigendur að missa húsnæði sitt vegna hárra stýrivaxta. Og ef það kemur kreppa, ef það verður samdráttur, þá verða ríkisfjármálin í gríðarlegum vanda. Það er vegna þess sem ég tel að við eigum fyrst og fremst við tekjuvandamál að stríða. Við getum séð þetta í rekstri Landhelgisgæslunnar, lögreglunnar, sjúkrahúsanna. Það er rétt sem kom hérna fram að við á þingi eigum að fara að skipta okkur meira af því hvernig hvert peningarnir fara. Við erum t.d. með allt of dýrt húsnæði, aldraðir eru á sjúkrahúsum en ekki hjúkrunarheimilum, skuldir ríkissjóðs eru gríðarlegar og við erum að borga 117 milljarða í vaxtagjöld sem er fáránlega há fjárhæð.

Ég held að þetta séu þau atriði sem við þurfum að taka á, þ.e. að greiða niður skuldir og sjá líka til þess að við fjármögnun okkur með réttum hætti sem taki þá á verðbólgu líka. Heildartekjur ríkissjóðs eru rúmir 1.356 milljarðar. Heildarútgjöldin eru hins vegar yfir 1.400 milljarðar. Það er halli á ríkissjóði upp á 46 milljarða. Breytingartillögur sem nú eru hér, ef ég man rétt, munu leiða til, að mig minnir, 9 milljarða aukins halla. Það er algjörlega óásættanlegt í góðæri að við séum að reka ríkissjóð með halla. Það munu koma 100 milljörðum meiri tekjur inn á þessu ári en við erum samt að reka ríkið með halla. Það er algjörlega óásættanlegt og við verðum að taka á því, sem og því að við verðum að berjast gegn verðbólgunni. Það er grundvallaratriði.